
Njáluþakkir
Þátttaka á Njáluvöku fór langt fram úr björtustu vonum. Hátt í sex hundruð manns troðfylltu íþróttahúsið á Hvolsvelli til að njóta margvislegra Njáluperla og hátt í sjö þúsund mannsmættu á Rangárbakka til að sjá brennureið hátt í hundrað knapa og upplifa í bland við ýmsa listviðburði þegar eldur var borinn að táknrænni endurgerð Bergþórshvols. Bekkurinn í Oddakirkju var þéttsetinn í hátíðarmessu til heiðurs Snorra Sturlusyni.
Brennu-Njáls saga ristir djúpt í þjóðarsálinni og nýstofnað Njálufélag er ákveðið í því að halda merkjum þessa magnaða bókmenntaverks áfram á lofti. Fjöldi listamanna, leikara og tónlistarfólks, hestamanna, víkinga og margra fleiri kom að fjölbreyttri dagskrá þessarar vel sóttu hátíðar. Fyrir þeirra glæsilega framlag er ég afar þakklátur og ekki síður þeim fjölmörgu gesta sem jafnvel komu um langan veg til að njóta.
En list- og menningarviburðir af því tagi sem Njáluvaka bauð upp á hefðu aldrei orðið að veruleika nema vegna ómetanlegs stuðnings frá fjölmörgum fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu verkefninu lið með myndarlegum fjárstuðningi. Fyrir þær góðu viðtökur vil ég þakka fyrir hönd Njálufélagsins um leið og ég læt í ljós von um að þessir bakhjarlar okkar verði áfram með í þeirri vegferð sem framundan er á næstu árum til þess að varðveita þann stall í íslenskri bókmenntasögu sem Brennu-Njáls saga hefur tyllt sér á.
Um Njálufélagið
Njálufélagið er stofnað til þess að hefja Brennu-Njáls sögu til þess vegs og virðingar sem henni ber í íslenskri bókmenntsögu. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er Njáluvaka sem haldin verður í Rangþárþingi dagana 21.-24. ágúst 2025. Í framhaldinu er ráðgert að efna til annarra viðburða og örva með ýmsum öðrum hætti áhuga og umfjöllun um þetta rómaða íslenska bókmenntaafrek sem segja má að hafi verið unnið á Íslandi löngu áður en álíka ritlistarmenning skapaðist í nágrannalöndum okkar.
Það er langtímamarkmið Njálufélagsins að halda lífi í orðspori Brennu-Njáls sögu hjá komandi kynslóðum íslensks samfélags. Njáluvakan í Rangárþingi ýtir þeim róðri úr vör.
Frumkvöðull að stofnun Njálufélagsins er Guðni Ágústsson, stjórnarformaður félagsins. Með honum í stjórn þess eru Hermann Árnason, Lárus Bragason, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Varamenn eru Eiríkur Vilhelm Sigurðarson og Gunnar Steinn Pálsson.